Björgunar­sveitir fóru í alls um 40 út­köll í gær og í nótt vegna mikil ó­veðurs. Auk þess sinnti björgunar­sveit lokunum. Karen Ósk Lárus­dóttir fjöl­miðla­full­trúi Lands­bjargar segir í sam­tali við Frétta­blaðið að út­köllin hafi verið miklu færri en búist var við á sama tíma og veður­spáin var eins slæm og búist var við.

„Við skrifum það á góðan undir­búning og að fólk hafi farið eftir fyrir­mælum. Veður­spáin gekk eftir og það skiptir öllu máli. Verk­efnin voru í kringum 40,“ segir hún og að flest hafi þau varðað fok og fólk sem var fast. Karen segir að hún hafi ekki heyrt af slysum á fólki.

„Það var verið að að­stoða ferða­menn sem voru fastir eða í vand­ræðum. Vega­gerðin var með gott lokunar­plan og lokaði öllu sem þau gátu lokað en það eru alltaf ein­hverjar sem komast fram hjá eða festast ein­hvers staðar þar sem ekki er lokað.“

Rauðar við­varanir voru á Norð­austur­landi og Austur­landi og enn eru í gildi appel­sínu­gular við­varanir fyrir austan.

Það er stutt frá síðasta ó­veðri.

„Já, það er marg­búið að rann­saka það að svona mót­vægis­að­gerðir þær virka. Við höldum alltaf á­fram með okkar slysa­varnir,“ segir Karen sem átti von á því að dagurinn yrði tíðinda­lítill hjá björgunar­sveitum í dag, eftir að við­varanir renna allar úr gildi.