Björgunarsveitir fóru í alls um 40 útköll í gær og í nótt vegna mikil óveðurs. Auk þess sinnti björgunarsveit lokunum. Karen Ósk Lárusdóttir fjölmiðlafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Fréttablaðið að útköllin hafi verið miklu færri en búist var við á sama tíma og veðurspáin var eins slæm og búist var við.
„Við skrifum það á góðan undirbúning og að fólk hafi farið eftir fyrirmælum. Veðurspáin gekk eftir og það skiptir öllu máli. Verkefnin voru í kringum 40,“ segir hún og að flest hafi þau varðað fok og fólk sem var fast. Karen segir að hún hafi ekki heyrt af slysum á fólki.
„Það var verið að aðstoða ferðamenn sem voru fastir eða í vandræðum. Vegagerðin var með gott lokunarplan og lokaði öllu sem þau gátu lokað en það eru alltaf einhverjar sem komast fram hjá eða festast einhvers staðar þar sem ekki er lokað.“
Rauðar viðvaranir voru á Norðausturlandi og Austurlandi og enn eru í gildi appelsínugular viðvaranir fyrir austan.
Það er stutt frá síðasta óveðri.
„Já, það er margbúið að rannsaka það að svona mótvægisaðgerðir þær virka. Við höldum alltaf áfram með okkar slysavarnir,“ segir Karen sem átti von á því að dagurinn yrði tíðindalítill hjá björgunarsveitum í dag, eftir að viðvaranir renna allar úr gildi.