Á­fram er þung staða á gjör­gæslu­deildum Land­spítalans, bæði vegna fjölda CO­VID-19 veikra og annarra sem þurfa gjör­gæslu­með­ferð. 40% þeirra sjúk­linga sem nú liggja á gjör­gæslu hafa er­lent ríkis­fang.

Þetta kemur fram í stöðu­skýrslu far­sótta­nefndar og við­bragðs­stjórnar Land­spítalans sem birt var á vef spítalans í dag.

Klukkan 13 í dag lá 31 sjúk­lingur á Land­spítala með CO­VID, þar af voru 25 á bráða­legu­deildum. Á­tján þeirra eru full­bólu­settir en sjö eru óbólu­settir, að því er fram kemur í skýrslunni. Sex sjúk­lingar eru nú á gjör­gæslu og eru fjórir þeirra bólu­settir. Fjórir af þeim sex sem eru á gjör­gæslu þurfa öndunar­véla­stuðning. Meðal­aldur inn­lagðra er 65 ár.

Alls hafa nú 76 sjúk­lingar lagst inn á Land­spítalann með CO­VID-19 í fjórðu bylgju far­aldursins og er um þriðjungur þeirra óbólu­settur. Ellefu hafa þurft gjör­gæslu­stuðning og eru sex þeirra full­bólu­settir.

Nú eru 1.232, þar af 239 börn í CO­VID göngu­deild spítalans, og fækkar þeim nokkuð á milli daga. 37 ein­staklingar flokkast gulir og þurfa nánara eftir­lit af þeim sökum.

Í skýrslunni kemur fram að mikil á­hersla sé lögð á að auka mönnun á gjör­gæslu­deildum spítalans, einkum lækna og hjúkrunar­fræðinga. Allir sem telja sig geta lagt hönd á plóg eru hvattir til að hafa sam­band við stjórn­endur þessara eininga. Þá kemur að lokum fram að sam­starf sé við Sjúkra­húsið á Akur­eyri vegna þessarar stöðu.