Niður­stöður al­þjóð­legrar skoðana­könnunar um við­horf al­mennings til bólu­setninga í alls 140 löndum var birt í dag. Alls telja um 79 prósent af þeim 140 þúsundum sem tóku þátt í könnuninni að bólu­setningar séu öruggar og sjö prósent að þær séu það ekki. Þegar fólk var spurt hvort það trúi því að bólu­setningar séu áhrifaríkar sögðu 84 prósent að þau séu sam­mála því að þær virki og um fimm prósent sögðust ekki telja þær áhrifaríkar.

Sótt­varna­læknir segir í til­kynningu á vef Land­læknis að niður­stöðurnar sýni að í löndum þar sem vel­megun er mikil ríkir tölu­verð van­trú á bólu­setningum en í fá­tækari löndum er traust á bólu­setningum mikið.

Hæsta hlut­fallið var í Suður-Asíu þar sem um 95 prósent al­mennings telja að bólu­setningar séu öruggar. Á eftir því fylgdi Austur-Afríka þar sem 92 prósent telja bólu­setningar öruggar.

Í Frakk­landi var hlut­fallið hæst meðal al­mennings sem telur bólu­setningar ekki öruggar, eða einn af hverjum þremur. Í Úkraínu, þar sem hefur geisað mis­lingafar­aldur undan­farin misseri, sögðu að­eins helmingur að bólu­setningar væru á­hrifa­ríkar.

Hann segir þó niður­stöður góðar fyrir Ís­land. Alls telur um 97 prósent al­mennings að bólu­setningar séu á­hrifa­ríkar til að koma í veg fyrir sjúk­dóma, og um 99 prósent telja að þær séu mikil­vægar fyrir börn. Aftur á móti segja um 40 prósent Ís­lendinga að þau séu í vafa um öryggi þeirra.

Í samræmi við íslenskar rannsóknir

Sótt­varna­læknir segir að þessar niður­stöður séu í sam­ræmi við rann­sóknir sem gerðar hafa verið hér á landi á undan­förnum árum um af­stöðu al­mennings til al­mennra bólu­setninga. Hann telur að niður­stöðurnar sýni að þörf sé á að bæta upp­lýsinga­gjöf til al­mennings um öryggi bólu­efna.

Bólu­setningar vernda milljarða fólks um alla heim fyrir alls­kyns sjúk­dómum sem áður fyrr drógu fólk oft til dauða. Bólu­sótt var, sem dæmi, al­ger­lega út­rýmt með bólu­setningum. Þá erum við ná­lægt því að út­rýma mænu­sótt með bólu­setningum.

Aðrir sjúk­dómar, eins og mis­lingar, eru nú aftur að dreifast og eru far­aldur víða um heim. Í um­fjöllun breska ríkis­út­varpsins segir að sér­fræðingar telji að það megi rekja til aukins bólu­setningar­hiks vegna þess að fólk fær ekki nægi­lega góðar upp­lýsingar um bólu­setningar.

Hægt er að kynna sér niður­stöður rann­sóknarinnar hér.