Sam­kvæmt nýrri skýrslu Vörðu, rann­sóknar­stofnunar vinnu­markaðarins, eiga um 80 prósent ör­yrkja erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman auk þess sem 80 prósent hafa neitað sér um heil­brigðis­þjónustu.

Skýrslan, sem kom út í dag, sýnir mjög slæma stöðu ör­yrkja. Fram­kvæmd var könnun meðal ör­yrkja og svar­endum beðnir að svara því hversu auð­velt eða erfitt þeir ættu með að ná endum saman, hvort þeir hefðu fengið fjár­hags­að­stoð, hvort þeir byggju við skort á efnis­legum gæðum og hvort fjár­skortur hefði komið í veg fyrir að hægt væri að veita barni/börnum ýmsar nauð­synjar. Að lokum voru svar­endur beðnir að meta hversu á­nægðir eða ó­á­nægðir þeir væru með fjár­hags­stöðu sína um þessar mundir. Allar spurningarnar voru greindar eftir kyni og aldri.

Niður­stöður á mælingum á níu þáttum efnis­legs skorts eftir kyni, aldri og fjöl­skyldu­gerð er að finna í skýrslunni. Þær sýna að 51 prósent hafa ekki efni á að fara í ár­legt frí og að 60 prósent geta ekki mætt ó­væntum út­gjöldum.

Geta ekki keypt nauðsynlegan fatnað eða næringarríkan mat

Ef litið er til þeirra sem eiga börn þá gátu 17 prósent ekki greitt fyrir mat í skólanum, 30 prósent gátu ekki greitt fyrir skipu­lagðar tóm­stundir, 40 prósent gátu ekki greitt fyrir nauð­syn­legan fatnað og 34 prósent gátu ekki keypt eins næringar­ríkan mat og þau töldu þurfa fyrir börn sín.

Sér­stak­lega er einnig fjallað um stöðu ein­stæðra for­eldra á meðal ör­yrkja eða fatlaðra og sam­kvæmt niður­stöður eiga 58 prósent ein­stæðra for­eldra erfitt með að ná endum saman, 29 prósent ein­stæðra for­eldra voru í van­skilum með leigu eða lán, 67 prósent ein­stæðra for­eldra komust ekki í ár­legt frí, 81 prósent gátu ekki mætt ó­væntum gjöldum, 44 prósent gátu ekki staðið undir kostnaði vegna skipu­lagðra tóm­stunda, 52 prósent gátu ekki keypt nauð­syn­legan fatnað á börn sín.

Fréttablaðið/Rebekka

Komast ekki í frí og geta ekki mætt óvæntum gjöldum

Staðan er heldur ekki góð meðal ein­hleypra en sam­kvæmt niður­stöðum könnunarinnar þá eiga 51 prósent ein­hleypra erfitt með að ná endum saman, 63 prósent ein­hleypra komust ekki í ár­legt frí með fjöl­skyldu og 69 prósent gátu ekki mætt ó­væntum gjöldum.

Fréttablaðið/Rebekka

Neita sér um ýmsa þjónustu

Af­leiðingar skortsins eru marg­vís­legar en margir neita sér um nauð­syn­lega heil­brigðis­þjónustu, lyf eða glíma við and­leg eða líkam­leg ein­kenni eins og þreytu og orku­leysi.

Fréttablaðið/Rebekka

Stór hluti glímir við félagslega einangrun

Sér­stakur kafli er í skýrslunni um fé­lags­lega ein­angrun og for­dóma en niður­stöðurnar sýna að mikill meiri hluti fatlaðs fólks glímir við fé­lags­lega ein­angrun og/eða for­dóma. Sjö af hverjum tíu finna fyrir mjög mikilli eða frekar mikilli fé­lags­legri ein­angrun en að­eins ríf­lega einn af hverjum tíu fyrir frekar eða mjög lítilli fé­lags­legri ein­angrun. Sam­kvæmt skýrslunni hefur Co­vid-far­aldurinn aukið á ein­angrunina.

Ungir karlar finna frekar fyrir fé­lags­legri ein­angrun en ungar konur og svo er niður­staðan öfug í eldri hópnum en þar finna eldri konur frekar fyrir fé­lags­legri ein­angrun en karlar. Að öðru leyti mælist ekki kyn- og aldurs­bundinn munur á fé­lags­legu ein­angruninni.

75 prósent finna fyrir for­dómum

Nærri þrír af hverjum fjórum finnur fyrir for­dómum vegna fötlunar sinnar og/eða ör­orku. Sam­kvæmt skýrslunni er for­dómana víða að finna í sam­fé­laginu og margir finna fyrir for­dómum frá mörgum aðilum. Þannig segjast 43 prósent af þeim sem finna fyrir for­dómum finna fyrir þeim í heil­brigðis­kerfinu, 40 prósent innan fjöl­skyldunnar, 38 prósent meðal vina, 34 prósent þar sem þau sækja þjónustu og 18 prósent við at­vinnu­leit.

Skýrsluna er hægt að skoða í heild sinni hér á vef Vörðu.