Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir standa fyrir listaveislu í gömlu stálsmiðjunni á Neskaupstað um helgina. Myndlistar- og tónlistarfólk flykkist í stálsmiðjuna þar sem alls 40 listamenn munu koma fram á tveimur dögum. ,,Búast má við gjöringum, brennu, nornum, nýsköpun og órjúfandi tengingum," segir Tara.

Blaðamaður náði tali af Töru og Silfrúnu þegar þær voru í þann mund að mála húsið að innan. „Það er allt að verða tilbúið fyrir töfra morgundagsins,“ segir Tara. Að sögn Töru er yfirlýst markmið hátíðarinnar að fylla stálsmiðjuna af allskonar skapandi fólki.

Átti að rífa stálsmiðjuna

Þetta er annað árið sem tvíeykið skipuleggur hátíðina en grasrót listamanna notað húsið yfir Eistnaflugshelgina frá því árið 2009. „Það átti að rífa stálsmiðjuna 2009 en þá var hópur af fólki sem ákvað að nota hana sem off-venue rými á Eistnaflugi.“

Fjögurra ára hlé var þó á hátíðarhöldum í stálsmiðjunni þar sem átti síendurtekið að rífa húsið. „Í fyrra vildi Eistnaflug ásamt menningarsjóði bæta meira af góðu flæði í hátíðina og setja stálsmiðjuna aftur á dagskrá“ segir Tara þar sem húsið standi enn órifið.

Tara og Silfrún í stálsmiðjunni fyrir málun.

Hljómsveitir urðu til og spila í ár

„Það er geðveikt að við höfum fengið að halda þetta aftur, núna erum við að byggja á grunninn sem við settum upp í fyrra,“ segir Silfrún. Hún bætir við að hljómsveitir sem stofnaðar voru á hátíðinni í fyrra komi nú fram í fyrsta skipti. „Núna koma þau fram undir nafni sem sýnir kannski fallega samstarfið sem myndaðist í viðburðinum í fyrr.“

„Við gerðum engar kröfur um að fólk væri með tilbúin verk þegar það myndi taka þátt, á þann hátt var margt nýtt sem þróaðist samhliða hátíðinni í fyrr“ segir Tara. Hún segir það hafa komið þeim á óvart hversu góð stemmning myndaðist strax innan hópsins. „Fólk var bara til í þetta og allir hjálpuðust að.“

Vinna með sveitafélaginu

„Í ár erum við líka að vinna með hóp úr skapandi sumarstörfum á austurlandi sem verður með þrjú verk að lokinni opnunarhátíðinni en á eftir þeim verða tónleikar fram á nótt“ nefnir Silfrún.

Silfrún segir alla geta búist við þrumu stuði í stálsmiðjunni um helgina þar sem grasrótin sýnir listir sínar og sköpunargleði. „Þegar maður gefur fólki rými til að skapa þá gerist eitthvað töfrandi“ bætir Tara við.

Stálsmiðjan í öllu sínu veldi.