39 greindust innanlands í gær og voru þar af 34 í sóttkví. Áfram eru fjórir einstaklingar innlagðir á sjúkrahús vegna COVID-19 og einn á gjörgæslu.

Hlutfall smitaðra sem var í sóttkví við greiningu hefur ekki verið hærra frá því að þriðja bylgja faraldursins hófst hér á landi.

Fjórir einstaklingar voru með jákvætt sýni við landamærin og bíða allir niðurstöðu mótefnamælingar. Tveir reyndust vera með virkt smit í fyrri skimun á laugardag.

Nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi smita síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa, heldur áfram að hækka og fer úr 118,1 í 128,2.

1.385 sýni tekin í gær

438 tilfelli hafa bæst við innanlands á síðustu 13 dögum. Alls hafa 715 smit greinst frá og með 15. júní síðastliðnum og 138 virk smit á landamærum.

492 eru nú í einangrun hér á landi og fjölgar um 37 milli daga. 1.897 eru í sóttkví og fjölgar um tvo, samkvæmt upplýsingum á covid.is. 1.779 eru í skimunarsóttkví.

Alls voru 1.385 sýni tekin í gær, þar af 602 einkennasýni, 629 landamærasýni og 154 sem hluti af sóttkvíar- og handahófsskimun. Er það í heild svipaður fjöldi og á laugardag en mun fleiri sýni voru tekin fyrir helgi.

Alma Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir munu fara yfir stöðu faraldursins hér á landi ásamt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis klukkan 14.

Fréttin hefur verið uppfærð.