Sá yngsti sem lést úr sjálfsvígi eða vísvitandi sjálfsskaða árið 2019 var á barnsaldri, eða 17 ára drengur. Alls létust 39 úr sjálfsvígi það árið á aldursbilinu 17 til 70 ára. Af þeim voru 32 karlmenn og sjö konur.

Yngsta konan var 24 ára og sú elsta 70 ára. Af körlunum var sá yngsti, eins og fyrr segir 17 ára, og þeir elstu 70 ára, en tveir 70 ára karlmenn féllu fyrir eigin hendi árið 2019.

Frá árinu 2009 er meðaltalið á ári um 38 einstaklingar. Flestir létust árið 2013 eða alls 49. Hér að neðan má sjá aldur og kyn þeirra sem létust úr sjálfsvígi eða vísvitandi sjálfsskaða árið 2019 og svo hversu margir hafa látist úr því frá árinu 2009.

Sá yngsti 11 ára

Frekar upplýsingar um tölfræðina er að finna á vef Hagstofunnar en þar má, meðal annars, sjá að stærstur hluti þeirra sem látast úr sjálfsvígi voru karlmenn og að sá yngsti sem hefur látist á þessum tímabili var ellefu ára drengur.

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir?

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn og hjá Pieta samtökunum er opið alla virka daga frá 9 til 16 en svarað er í Pieta-símann 552 2218 allan sólarhringinn.