Um 3,7 milljarðar króna hafa verið greiddir í tekjufallsstyrki til 540 rekstraraðila undanfarnar tvær vikur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Síðustu mánuði hafa á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér úrræði stjórnvalda svo sem styrki, lán, gjaldfresti og annan stuðning. Þar á meðal hafa 1.450 rekstraraðilar fengið lokunarstyrki fyrir rúmlega 1,8 milljarða króna.

Skatturinn stefnir í að opna fyrir umsóknir fyrir viðspyrnustyrki sem er ætlað fyrirtækjum til að halda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Eins hyggst fjármála- og efnahagsráðuneytið leggja til breytingar á afborgunartíma stuðningslána.