Alls hafa 37 einstaklingar greinst með breska afbrigðið af COVID-19 hér á landi.

Flestir hafa greinst á landamærunum en fjórir hafa greinst innanlands. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að þar fyrir utan hafi þau ekki séð frekar útbreiðslu afbrigðisins hér á landi.

Breska afbrigðið er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Engar vísbendingar eru um að það valdi alvarlegri veikindum eða að bóluefni virki ekki gegn henni en það er hins vegar talið valda meiri smitum hjá börnum.

Þórólfur, sagði í minnisblaði til heilbrigðisráðherra í síðustu viku að yfirvofandi hætta væri á því að breski stofninn nái að breiðast út hér innanlands. Faraldurinn erlendis mætti að miklu leyti rekja til þessa stofns. Hann lagði til að reglur á landamærum yrðu hertar.

Í gær tók í gildi sú regla að börn fædd 2005 eða síðar er skylt að sæta sótt­kví með for­eldri eða for­ráða­manni við komu til landsins og byggist á tillögu sóttvarnalæknis vegna fjölda smita erlendis sem megi víða rekja að miklu leyti til breska afbrigðisins.