Allt að 37 farþegar slösuðust í flugi Air Canada á leið til Sydney í gærkvöldi vegna gífurlegrar ókyrrðar. Flugið var á leið frá Vancouver og nauðlenti á flugvelli í Honolulu í Hawaii. Þá voru 269 farþegar um borð ásamt 15 áhafnarmeðlimum. Flugvélin var af gerð Boeing 777-200.

Flugfélagið Air Canada sendi frá sér í tilkynningu í kjölfarið. „Flugöryggi og öryggi farþega okkar og áhafnar er í forgangi hjá okkur. Sjúkraliðar eru til taks til að kanna ástand farþeganna í Honolulu,“ segir í tilkynningunni.

Þrjátíu manns þurftu að leita læknisaðstoða vegna áverka og voru níu fluttir á sjúkrahús alvarlega slasaðir að því er fram kemur á á fréttavef BBC.

Farþegar sem ræddu við blaðamenn á svæðinu lýstu því að margir farþegar hafi tekist á loft í ókyrrðinni og skollið á veggina og loftið í flugvélinni.