Spænski bílaframleiðandinn Seat sem er í eigu Volkswagen Group er ekki þekktast fyrir framleiðslu öflugra sportbíla en hefur þó boðið Leon Cupra R bílinn með 296 hestafla vél í nokkurn tíma. Nú hefur Seat brett enn meira upp ermarnar og er að smíða enn öflugri gerð þessa bíls með 365 hestöfl undir húddinu. Fær þessi útgáfa hans nafnið Sear Leon Cupra R ST. Með allt þetta afl er bíllinn aðeins 4,5 sekúndur í hundraðið en hefðbundinn Leon Cupra R er 0,4 sekúndum latari. 

Leon Cupra R kostar 37.945 pund í Bretlandi og aðeins þarf að bæta við 500 pundum til að krækja sér í öflugri gerð bílsins. Þá mun hann kosta sem samsvarar 6 milljónum króna. Einn helsti munurinn á R og R ST gerðunum er fólginn í því að R gerðin er framhjóladrifin en R ST er fjórhjóladrifinn og eykur það aksturshæfni hans verulega. Í R ST gerðinni er að auki 8 tommu snertiskjár, alcantara áklæði á stýri og sportsæti. Seat mun hefja afgreiðslu Leon Cupra R ST strax í næsta mánuði.