Bandarísk yfirvöld hafa fengið rúmlega 350 tilkynningar um óútskýrða fljúgandi hluti í lofthelgi sinni frá því í mars 2021. CNN greinir frá þessu og vísar í nýja skýrslu þar sem fjallað er um þetta. Ekki hefur tekist að finna skýringu á um helmingi tilvikanna.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur það hlutverk að kanna ábendingar um fljúgandi furðuhluti og í skýrslunni kemur fram að um helmingur tilkynninganna hafi varðað loftbelgi, dróna, fugla eða veðurfyrirbrigði.
Í frétt CNN kemur fram að margar tilkynningar hafi komið frá bandaríska hernum, flugmönnum sem hafi séð torkennilega hluti á flugi.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur hvatt flugmenn til að tilkynna það strax ef þeir sjá óútskýrða fljúgandi hluti á sveimi.
Bandarísk yfirvöld birtu skýrslu árið 2021 sem vakti mikla athygli. Í henni var reynt að varpa ljósi á um 140 atvik þar sem flugmenn á vegum sjóhersins höfðu orðið varir við torkennilega hluti á flugi.