Ástæða afsagnar Auðuns Freys Ingvarssonar sem framkvæmdastjóri Félagsbústaða er 330 milljón króna framúrkeyrsla við framkvæmdir á íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík. Framkvæmdirnar fóru 83 prósent fram úr kostnaðaráætlun, sem var upp á 398 milljónir, og var heildarkostnaðar Félagsbústaða 728 milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn Félagsbústaða. 

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Auðun Freyr hafi látið af störfum síðasta föstudag. Var það sameiginleg ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjórans, en ekki kom fram hvers vegna hann hafði látið af störfum. Félagsbústaðir er félag í eigu Reykjavíkurborgar og tilheyrir B-hluta rekstrarbókhalds sveitarfélagsins. Hlutverk félagsins er að byggja upp íbúðir til nota í félagslegum tilgangi.

„Ýmsar brotalamir“ á framkvæmdunum

Í tilkynningunni segir að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hafi framkvæmt úttekt á endurbótum sem Félagsbústaðir fóru við eignir sínar að Írabakka 2-16 á árunum 2012 til 2016. Í maí 2016 óskaði stjórnin eftir úttekt innri endurskoðunar. „Fyrir lá að ýmsar brotalamir höfðu verið á framkvæmd og skipulagi verkefnisins. Skýrsla Innri endurskoðunar var nýlega kynnt fyrir stjórn og komu þar fram athugasemdir við stjórnhætti í tengslum við umrætt verkefni,“ segir í tilkynningu stjórnarinnar.

Segir jafnframt að stjórn hafi átt í góðu samstarfi við Auðun undanfarin ár, og að hann það samstarf hafi leitt til margþættra úrbóta á rekstri félagsins. „Engu að síður hefur framkvæmdastjóri, í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu í skýrslu Innri endurskoðunar, kosið að segja starfi sínu lausu.“ 

Stjórn samþykkti ekki viðbótarfjárheimildir

Úttektin leiddi í ljós að á fjögurra ára tímabili hafði stjórn samþykkt framkvæmdir fyrir 398 milljónir, eftir í ljós kom að íbúðirnar við Írabakka þurftu mun meira viðhald en í fyrstu var gert ráð fyrir, en í fyrstu hefði 44 milljónum verið ráðstafað til að skipta á gluggum, ofnum og tréverki í íbúðunum. Stjórn hafi þó ekki samþykkt þá ráðstöfun fjárhags sem framúrkeyrslan er upp á.

Setti innri endurskoðun fram margvíslegar ábendingar, og segir stjórn þær gagnlegar í tilkynningu sinni. Þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn mun Sigrún Árnadóttir sinna starfinu, og er hlutverk hennar að vinna að úrbótum á verkfrerlum í framkvæmd sem koma fram í úttekt innri endurskoðunnar.

Meðal þeirra úrbóta sem innri endurskoðun leggur til er að stjórn þurfi að samþykkja viðbótarfjárheimildir þegar fyrir séð er að útgjöld við framkvæmd verði meiri en áður var gert ráð fyrir.  Að auki er áréttað að Félagsbústaðir eigi að fylgja lögum um opinber innkaup, sem m.a. felur í sér að verk fari í útboð þegar kostnaðaráætlun er umfar viðmiðunarfjárhæð. Þá er að auki bent á að félagið þurfi að setja sér innkaupa stefnu til að stuðla að góðri innkaupa stjórn.