33 kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær. Þetta kemur fram í tölum sem birtust á COVID.is nú klukkan 11. Nítján einstaklingar voru í sóttkví þegar þeir greindust en fjórtán voru ekki í sóttkví.

Átta einstaklingar eru á sjúkrahúsi, þar af tveir á gjörgæslu. Örlítið færri sýni voru tekin í gær en á mánudag, en þann dag greindust 32 smit.

551 einstaklingur er nú í einangrun vegna COVID-19 hér á landi og 1.747 eru í sóttkví.

Alls hafa 2.728 staðfest smit komið upp hér á landi frá því í febrúar. 14 daga nýgengi innanlandssmita er nú 140,7 á hverja 100 þúsund íbúa. Hæst fór þessi tala í 267 þann 1. apríl síðastliðinn.