33 ný smit greindust innanlands í gær og voru 14 í sóttkví við greiningu. Einn liggur nú á sjúkrahúsi með COVID-19 og hefur einn sjúklingur verið útskrifaður.

Er þetta nokkur fækkun frá þriðjudeginum þegar 57 einstaklingar greindust með COVID-19 en þá var tekinn metfjöldi sýna hér á landi. 296 hafa greinst innanlands síðustu níu daga.

352 eru nú í einangrun með virkt smit og fjölgar um 28 milli daga. Fjórir voru með jákvætt sýni við landamærin og bíða niðurstöðu mótefnamælingar.

2.486 eru í sóttkví hér á landi, samkvæmt upplýsingum á covid.is, og fjölgar um 76 milli daga.

Alls voru 2.933 sýni tekin í gær, þar af 1.225 einkennasýni, 860 við landamæraskimun, 422 vegna sóttkvíar- og handahófsskimunar og 426 í skimunum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Eru það í heild nokkuð færri sýni en á þriðjudag þegar alls voru tekin 5.165 sýni.

574 tilfelli frá 15. júní

Af tilfellunum sem greindust innanlands í gær reyndust 24 einkennasýni jákvæði, sex úr sóttkvíar- og handahófsskimun og þrjú úr skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Alls hafa 574 tilfelli greinst innanlands frá og með 15. júní síðastliðnum. Þá hafa 127 virk smit greinst við landamæraskimun á sama tímabili. 2.476 staðfest tilfelli hafa greinst hér á landi frá því að faraldurinn hófst í vor.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 14.

Þar munu Alma Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu COVID-19 faraldursins hér á landi.

Fréttin hefur verið uppfærð.