Alls hefur 317 börnum sem sótt hafa um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi verið vísað frá landi á tíma­bilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019. Það kemur fram í svari dóms­mála­ráð­herra við fyrir­spurn Jón Þórs Ólafs­sona, þing­mann Pírata, en hann spurði hversu mörgum börnum hafi verið vísað frá landi frá því að Ís­land leiddi í lög Samning Sam­einuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barna­sátt­málann, í mars árið 2013.

Segir í svari ráð­herra að meiri­hluti barnanna hafi verið í fylgd for­eldra, en þó er ekki gefið upp ná­kvæmt hlut­fall. Börnunum var vísað frá landi í kjöl­far á­kvörðunar stjórn­valda um að synja þeim um efnis­með­ferð eða synja þeim um vernd í kjöl­far efnis­legrar með­ferðar.

Jón Þór spyr í öðrum tölu­lið hvernig brott­vísanir hafi verið rök­studdar, en sér­stak­lega er teið fram í Barna­sátt­málanum að þegar stofnanir á vegum hins opin­bera taki á­kvarðanir sem snerti börn, þá eigi á­vallt það sem barninu er fyrir bestu að hafa for­gang.

Áhersla lögð á einingu fjölskylda

Í svari dóms­mála­ráð­herra segir að erfitt sé að tíunda rök­stuðning fyrir brott­vísunum í heild sinni því hvert mál sé metið með til­lit til að­stæðna hvers og eins barns. Þar segir þó að lögð sé á­hersla á að tryggja einingu fjöl­skyldunnar og að al­mennt sé talið að hags­munum barns sé best borgið með þeim hætti.

Þar segir að Út­lendinga­stofnun, og eftir til­vikum kæru­nefnd út­lendinga­mála, meti í hverju til­felli hvað sé barninu fyrir bestu og taki þá til greina á­kvæði barna­sátt­málans.

„Hafi verið komist að þeirri niður­stöðu að barn upp­fylli ekki skil­yrði þess að fá al­þjóð­lega vernd hér á landi og að hags­munum barnsins sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi for­eldri eða for­eldrum sínum aftur til heima­lands þeirra eða annars ríkis sem þau hafa heimild til dvalar er tekin á­kvörðun um að vísa barninu frá landinu í fylgd for­eldris eða for­eldra þess,“ segir í svari dóms­mála­ráð­herra.

Hafa engar upplýsingar um afdrif barnanna

Að lokum spyr Jón Þór hvort að stjórn­völd eða stofnanir hafi ein­hverjar upp­lýsingar um af­drif þessara barna eftir að þeim hefur verið vísað frá landi. Því svarar ráð­herra neitandi og segir að eftir­fylgni með börnum eftir að þau hafa verið flutt frá landinu falli utan vald­sviðs ís­lenskra stjórn­valda.