Alls er 31 lögregluþjónn í sóttkví á landsvísu vegna COVID-19. Langflestir þeirra starfa á höfuðborgarsvæðinu eða 25 talsins og dreifist restin á önnur lögregluembætti.

Þetta kemur fram í svari Ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fram kom í fyrradag að lögregluþjónn hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi greinst með COVID-19 og að þrettán aðrir hafi verið sendir í sóttkví. Auk þess voru fimm til viðbótar í úrvinnslusóttkví.

Tveir á Akureyri

Tveir lögregluþjónar eru í sóttkví hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Greint var frá því á fimmtudag þeir hafi verið skikkaðir í sóttkví eftir að hafa átt í samskiptum við smitaðan einstakling við hálendiseftirlit.

Þá er einn í sóttkví hjá embætti lögreglunnar á Suðurlandi, einn í Vestmannaeyjum, einn á Suðurnesjum og einn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Mikil hreyfing á fjölda í sóttkví

Enginn lögregluþjónn var í sóttkví hjá lögreglunni á Austurlandi, Norðurlandi vestra, Vesturlandi eða Vestfjörðum þegar gögnin voru tekin saman í gær.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri segir að um sé að ræða tölur sem breytist stöðugt og erfitt sé að veita upplýsingar um eintaka mál að svo stöddu.