Alls eru 30 starfs­menn Land­spítalans í ein­angrun vegna CO­VID-19-far­aldursins. Auk þess eru 176 starfs­menn í sótt­kví. Einn sjúk­lingur er inni­liggjandi vegna CO­VID-19 og 357 sjúk­lingar eru í eftir­liti CO­VID-göngu­deildar. 40 starfs­menn Land­spítalans á Hring­braut hafa verið boðaðir í skimun í dag.

Þá verður dregið úr starf­semi göngu­deilda A3 og B3 til að styrkja mönnun CO­VID-19 göngu­deildar. Gert er ráð fyrir að sú ráð­stöfun gildi fram yfir helgi.

Þetta kemur fram á vef Land­spítalans. Eins og kunnugt er er Land­spítali á hættu­stigi vegna far­aldursins og hefur við­bragðs­á­ætlun spítalans vegna far­sótta verið virkjuð.

Ein­angrun og sótt­kví starfs­manna vegna far­aldursins hefur haft á­hrif á starf­semi í skurð­lækninga­þjónustu og hefur að­gerðum verið frestað vegna þessa. Að­gerðum er for­gangs­raðað þannig að allar brýnar að­gerðir eru fram­kvæmdar, s.s. krabba­meins­að­gerðir og aðrar sem ekki þola bið.

„Eins og kunnugt er tekur spítalinn þátt í bið­lista­á­taki vegna lið­skipta­að­gerða en vegna þeirrar stöðu sem upp er komin er hugsan­legt að fresta verði þeim að­gerðum sem fyrir­hugaðar voru um komandi helgi,“ segir á vef spítalans en þar segir að sjúk­lingar sem bíða þessara að­gerða verði upp­lýstir um gang mála um leið og niður­staða liggur fyrir.