Alls greindust 30 COVID-19-smit hér á landi í gær, samkvæmt tölum sem birtust á vefnum COVID.is nú klukkan 11. Þetta er nokkuð lægri fjöldi en undanfarna daga, en á föstudag greindust 75 smit og 38 smit á laugardag.

Þrjú smit greindust á landamærunum og er beðið eftir niðurstöðu mótefnamælingar úr þeim öllum.

Fimmtán einstaklingar voru í sóttkví þegar þeir greindust í gær en fimmtán utan sóttkvíar. Tveir einstaklingar eru á sjúkrahúsi.

Rúmlega 2.100 manns eru nú í sóttkví og 242 í einangrun. Frá 28. febrúar síðastliðnum hafa 2.377 smit greinst hér á landi.