Meðal þeirra má nefna minni blendingsbíl með bogadreginni þaklínu sem líkist mjög CH-R bílnum. Einnig var minni blendingsbíll sem minnir á Aygo X frumsýndur, en hann verður næsti framleiðslubíll Toyota í rafbílum og frumsýndur endanlega í lok ársins 2022. Næsti bíll á eftir honum verður miðlungsstór fjölskyldubíll, en sá fjórði verður stór jepplingur með þremur sætaröðum.

Næsti rafbíll Toyota verður þessi litli blendingsbíll sem líkist mjög Aygo X.

Toyota ætlar sér greinilega stóra hluti þegar kemur að rafbílum og að sögn Akio Toyoda er markmiðið að bjóða rafbíla fyrir alla. Áætlar Toyota að selja 3,5 milljón rafbíla áður en þessi áratugur er úti. Þess vegna mun rafbílavæðingin einnig ná til Lexus merkisins og verða allir bílar Lexus rafdrifnir. Frá Lexus var nýr sportbíll frumsýndur sem verður með upptak undir þremur sekúndum í hundraðið. Að sögn Akio Toyoda verður drægi hans yfir 700 km.

Meðal annarra tilraunabíla sem frumsýndir voru Toyota megin var pallbíll í anda Hilux, jeppi sem minnir mikið á FJ-Cruiser, Toyota sportbíll, tveir aðrir blendingsbílar og tveir sendibílar. Toyota áætlar að verða kolefnishlutlaust merki árið 2035 með þessum aðgerðum og fleirum. Meira verður fjallað um þessa bíla í næsta bílablaði Fréttablaðsins.