Alls voru staðfest 30 kórónuveirusmit innanlands í gær. 60% þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví en 12 einstaklingar voru utan sóttkvíar. 1.844 sýni voru tekin í gær.
18 einstaklingar eru nú inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af eru 3 á gjörgæslu. Tveir þeirra eru í öndunarvél. Í gær var 21 á sjúkrahúsi vegna veirunnar.
Nú eru 1.110 í einangrun á Íslandi en þeim hefur fækkað undanfarna daga. Í gær voru 1.159 í einangrun
Alls eru 2.452 í sóttkví, það er fækkun á milli daga en í gær voru 2.542 í sóttkví. 1.442 eru í skimunarsóttkví.
Nýgengni innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar mælist nú 230,7og er á hraðri niðurleið. Við landamærin eru þau 22,4.
Eitt virk smit greindist við landamærin og fimm sýni eru í bið eftir niðurstöðu mótefnamælingar.
Kúrvan á niðurleið
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að faraldurinn væri á niðurleið innanlands. Hinsvegar væri faraldurinn í miklum vexti í Evrópu en Ísland er eitt fjögurra landa í Evrópu þar sem tíðni daglegra smita og meðaltal síðustu sjö daga fer minnkandi, allsstaðar annars staðar í álfunni er faraldurinn á uppleið.
Undanfarið hafa óvenjumargir farþegar greinst með Covid-19 á landamærunum. Þórólfur sagði að það gæfi til kynna að hlutfall einstaklinga með Covid-19 sem eru að koma hingað frá öðrum löndum eigi eftir að hækka þar sem faraldurinn er í mikilli uppsveiflu í flestum löndum.