Um 30 farþegar, sem áttu að fara í flug flugvélar Ryanair, sátu eftir með sárt ennið á flugvellinum í Edinborg í Skotlandi þegar flugvél flugfélagsins skildi þá eftir á vellinum. Að sögn þeirra læsti starfsfólk flugfélagsins þau inni á stigagangi og vissi vel af þeim áður en vélin fór í loftið.

„Maður gæti kannski skilið að þeir hefðu farið í loftið ef að það vantaði bara nokkra farþega og þeir gerðu ekki manntal en þetta var eitthvað allt annað,“ sagði Nicolas Vasques, búsettur í Edinborg, í samtali við erlenda fréttamiðla. „Það voru svo margir farþegar læstir inni á stigaganginum að það var augljóst að eitthvað var að.“

Margir farþeganna hafa haldið því fram að flugfélagið hafi skilið þá eftir vísvitandi í stað þess að fara og opna stigaganginn fyrir þeim til að halda frekar flugáætlun sinni og eiga síðar við afleiðingarnar af að skilja þá eftir. „Áhöfn vélarinnar hafði labbað í gegnum stigaganginn á meðan við vorum að bíða og farið um borð í vélina,“ sagði einn þeirra sem var læstur á ganginum. „Þau hafa læst honum á eftir sér,“ hélt hann áfram og sagði engan möguleika á að áhöfnin hafi ekki vitað af þeim á ganginum.

Þau komust svo ekki út fyrr en að umræddur Nicolas Vasques opnaði neyðarútgang á stigaganginum. Það var eftir að hann hafði séð flugvélina taka á loft á síðu á netinu þar sem hægt er að fylgjast með ferðum flugvéla í rauntíma.

„Okkur var bókstaflega haldið föngnum á stigaganginum. Það eru engar ýkjur að halda því fram,“ segir hinn 77 ára gamli Tom Brady, sem átti að vera um borð í vélinni. Hún var á leiðinni til pólsku borgarinnar Krakáar. Farþegarnir höfðu farið í gegnum alla tollgæslu og sýnt miða sinn alls staðar sem það þurfti og var farangur þeirra þegar kominn um borð.

Þeir fengu loks flug og komust leiðar sinnar mörgum klukkustundum síðar. Talsmaður Ryanair hefur vísað allri ábyrgð á málinu frá flugfélaginu og bent á flugvöllinn í Edinborg. Málið er nú til rannsóknar hjá báðum aðilum.