30 ár eru liðin frá einum merkasta atburði í sögu vestrænnar menningar; frá falli Berlínarmúrsins árið 1989. Sérstök hátíðarathöfn er nú haldin í miðborg Berlínar þar sem Angela Merkel kanslari Þýskalands lætur sjá sig.

Fall múrsins táknaði nýtt upphaf þar sem frelsi og borgaraleg réttindi áttu að vera í fyrirrúmi. Múrinn var fyrir mörgum mannvonskan efnisgerð og var fall hans einn stærsti menningarlegi atburður í sögu Evrópu.

Upphafið

Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar í september 1945 gáfust Þjóðverjar upp fyrir bandamönnum, sem skiptu Þýskalandi á milli sín í sérstök yfirráðasvæði. Sovétmenn réðu þá yfir austurhluta landsins en Bretar, Ameríkanar og Frakkar skiptu á milli sín svæðunum í vesturhlutanum. Höfuðborg landsins Berlín var þá á yfirráðasvæði Sovétríkjanna og var því ákveðið að skipta borginni einnig upp í fjögur yfirráðasvæði sem hvert ríki réði yfir.

Morguninn 13. ágúst vaknaði fólk upp við að vera fast innan veggja múrsins.
Fréttablaðið/Getty

Árið 1949 var Þýskalandi svo skipt upp í tvö ríki: Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland og varð í kjölfarið ljóst að Sovétmenn höfðu aðrar hugmyndir en hin ríkin um framtíð Þýskalands. Spenna myndaðist milli Sovétmanna og hinna vestrænu ríkja og var það loks árið 1961 að Sovétmenn ákváðu að reisa múr milli austur- og vesturhluta Berlínar til að hindra fólk í að komast á milli ríkjanna.

Múrinn var reistur á methraða; á einni nóttu þann 13. ágúst höfðu hermenn komið upp girðingu á landamærunum. Vöknuðu margir upp við þann veruleika að vera fastir inni í öðrum hluta borgarinnar, jafnvel fjarri ættingjum og vinum og jafnvel vinnustað sínum. Hermenn sáu um eftirlit með múrnum og var fólki stranglega bannað að fara yfir hann.

Angela Merkel við hátíðarhöld í Berlín í dag. Kanslarinn ólst upp í Austur-Þýskalandi.
Fréttablaðið/Getty

Táknmynd kalda stríðsins

Um fimm þúsund manns reyndu að komast yfir múrinn á þeim 28 árum sem hann stóð uppi, en það var bæði erfitt og stórhættulegt. Á annað hundrað manns voru teknir af lífi fyrir tilraunir sínar til að komast yfir múrinn og enn fleiri voru drepnir á þessum tíma fyrir að reyna að flýja Austur-Þýskaland við önnur landamæri.

Múrinn varð að eins konar táknmynd kalda stríðsins og er fall hans gjarnan talið marka upphafið að endalokum þess. Mótmæli höfðu brotist út víðs vegar um Sovétríkin þar sem fólk krafðist aukins frelsis. Fleiri og fleiri tókst þá að flýja Austur-Þýskaland við landamæri Tékklands og Ungverjalands og áttu stjórnvöld sífellt erfiðara með að hindra ferðir fólks úr landinu.

Þann 9. nóvember 1989 þustu þúsundir Berlínarbúa að múrnum og kröfðust þess að hermennirnir opnuðu landamærin.
Fréttablaðið/Getty

Þann 9. nóvember 1989 þustu svo þúsundir Berlínarbúa að múrnum og kröfðust þess að hermennirnir opnuðu landamærin. Hermennirnir réðu ekki við fólksfjöldann og stigu til hliðar á meðan þúsundir manna klifu upp vegginn og hófu loks að rífa hluta hans niður.

Mikil fagnaðarhöld brutust út um alla borgina og hittu margir fjölskyldumeðlimi sína í fyrsta skipti í tæp 30 ár. Næstu vikur fóru ýmsir að múrnum og brutu hluta hans niður með sleggjum en það var ekki fyrr en eftir áramót 1990 sem ríkisstjórnin reif hann formlega niður. Nokkrir hlutar hans standa þó enn, sem minnisvarðar.

Árið 1990 hófust viðræður milli Austur- og Vestur-Þýskalands um að sameina landið á ný. Þann 3. október, 11 mánuðum eftir fall múrsins, voru ríkin svo formlega sameinuð í það Þýskaland sem við þekkjum í dag.

Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty