Í dag fór hitinn í Hall­orms­stað upp í 29,3 gráður klukkan 13:20. Hitinn hefur ekki mælst meiri í þrettán ár og það styttist mögulega í að íslenska hitametið frá 1939 verði slegið.

„Þetta er hita­met ágúst­mánaðar og hæsti hitinn sem hefur mælst á landinu síðan í hita­bylgjunni í júlí 2008. Það eru þrettán ár,“ segir Teitur Ara­son, veður­fræðingur á Veður­stofunni, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Það er nokkuð skýjað á öllu landinu í dag en yfir Austur­landi eru göt í skýja­hulunni og þess vegna hefur hitinn náð þessum hæðum á Austur­landi að sögn Teits. Hann segir að Veður­stofan hafi búist við því að hitinn yrði meiri á morgun.

„Það var meiningin að haf­golan myndi fara inn á Austur­landið en hún hefur ekki enn náð á Hall­orms­stað. Það gerðist áðan á Egils­staða­flug­völli að hitinn fór í 27 stig en svo kom haf­gola og þá datt hitinn niður í 18 stig. Það er spurning hvort að haf­golan nær inn á Hall­orms­stað eða ekki,“ segir Teitur.

Það fer þá kannski hærra, hita­stigið?

„Það er spennandi að sjá, það gæti mögu­lega gert það. Hita­metið á Ís­landi er orðið svo gamalt. Það er frá 22.júní 1939 og er 30,5 stig á Teigar­horni í Beru­firði. Það stendur enn svona gamalt og það er einhver mögu­leiki á því að það verði slegið í dag eða á morgun en það eru minni líkur en meiri,“ segir Teitur.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð að það styttist í að íslenskt hitamet gæti verið slegið en það er ekki rétt. Leiðrétt klukkan 14:39.