Um 19 milljón manns í Bretlandi gætu verið með kórónaveirusjúkdóminn COVID-19 samkvæmt nýrri rannsókn. Greint er frá þessu í The Independent.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá teymi vísindamanna frá Háskólanum í Manchester og Salford Royal sjúkarhúsinu í samvinnu við samtökin Res Consortium sem sá um tölfræðina.

Teymið komst að þeirri niðurstöðu að um 29 prósent af íbúum Bretlands séu líklegir til að hafa smitast nú þegar af COVID-19.

Búið er að birta greinina í vísindatímaritinu International Journal of Clinical Practice og byggir á tölfræði um hvernig kórónaveiran breiðir úr sér og hversu hratt.

„Svo virðist sem stór hluti af þeim sem smitast hafa fengið fá eða engin einkenni og hafa því smitin ekki verið skráð,“ segir Dr. Adrian Heald frá Háskólanum í Manchester.

Mike Stedman frá Res Consortium segir að gæðavottað mótefnapróf sem mælir ónæmi gegn kórónuveirunni myndi gefa öruggari niðurstöður en slík próf er nýhafin á Bretlandseyjum.