Alls hlupu 29 hlauparar af stað inn í nóttina frá Hveragerði í gærkvöld en þá hófst utanvegahlaupið Salomon Hengill Ultra Trail.

Þá tóku af stað keppendur í 100 kílómetra hluta keppninnar. Klukkan 9 í dag verða ræstir keppendur í 50 kílómetrum og klukkan 13 keppendur sem ætla sér að hlaupa 25 kílómetra.

87 keppendur eru skráðir í 50 kílómetra og rúmlega 400 í 25 kílómetra.

150 á biðlista

Aldrei hafa fleiri keppt í hlaupinu en í fyrra tóku 340 hlauparar þátt en í ár eru vel á 700 hlauparar mættir til leiks.

„Það er ljóst að við gætum hæglega verið með 800 keppendur eða meira í ár, það eru um 150 keppendur á biðlista. Við viljum bara halda okkur innan þess ramma sem almannavarnir hafa lagt upp með. Það tryggir öryggi allra,” segir Þórir Erlingsson einn af skipuleggjendum mótsins.

Gert er ráð fyrir því að flestir keppendur verði komnir í mark fyrir klukkan 18 í dag.

Fimm vegalengdir

Lengsta ræsing mótsins er Hengill Ultra 100km. Þeir keppendur voru ræstir út í gærkvöld til þess að komast í mark á tilskildum tíma í dag.

Hengill Ultra er nú haldin í níunda sinn en hlaupið hefur verið að skapa sér nafn sem einn af stóru viðburðum ársins. Hlaupið er hluti af mótaröðinni Víkingar sem er haldin í samvinnu við UMFÍ. Mótaröðin samanstendur af fjórum almenningsíþróttakeppnum í hjólreiðum og utanvegahlaupum en þátttaka í þessum íþróttagreinum hefur margfaldast á milli ára. Mótaröðin er skipulögð í samráði við UMFÍ sem verðlaunar þá keppendur sem taka þátt í öllum mótum raðarinnar hvert ár.

Skipuleggjendur mótaraðarinnar hafa staðið frammi fyrir óvissu sem nú virðist vera að létta:
„Þetta er búið að vera í nokkuð óljósri stöðu frá því í byrjun mars og allan apríl. En framundan eru bjartir tímar. Með samfélagssáttmála Víðis og þríeykisins að leiðarljósi sjáum við fram á það að keppnirnar geti allar farið fram án þess að brotið verið gegn reglum og leiðbeiningum,“ segir Þórir Erlingsson, einn af forsvarsmönnum mótaraðarinnar.

Allir bestu utanvegahlauparar landsins verða því í Hveragerði um helgina.

Keppendur fóru brosandi inn í nóttina.
Mummi Lú