Að minnsta kosti 28 eru látnir og yfir 150 særðir eftir sprengjuárás í mosku í borginni Peshawar í Pakistan síðdegis í gær. BBC greinir frá.
Fjöldi fólks var samankominn í moskunni við bænastund þegar mikil sprengingin átti sér stað. Að sögn pakistanskra yfirvalda er stór hluti byggingar gjöreyðilagður og fjöldi fólks enn grafinn undir grjótmulningi. Þá hafa tugir verið fluttir á slysadeild.
Forsætisráðherra landsins, Shebaz Sharif, hefur fordæmt árásina, en enn er ekki vitað hver ber ábyrgð á henni. Hann útilokar þó ekki að um hryðjuverk geti verið að ræða.
„Þeir sem bera ábyrgð á þessu ódæði eru alls ótengdir íslamskri trú. Öll þjóðin stendur sameinuð gegn þessari hryðjuverkaógn,“ segir í yfirlýsingu frá Sharif.
Pakistanskir fjölmiðlar hafa greint frá að lögreglan, herinn og sprengjusveit séu nú á vettvangi. Þá hefur lögreglan í höfuðborginni Islamabad lýst yfir hættuástandi í borginni og aukið eftirlit með öllum leiðum inn og út úr borginni.