Af þeim 62 sem eru í gæslu­varð­haldi í fangelsum landsins eru 28 í ein­angrun á Hólms­heiði. Flestir í tengslum við stunguárásina á Bankastræti Club fyrir tæpri viku.

Garðar Svans­son trúnaðar­maður fanga og fangavörður segir þetta hafa mikil á­hrif á rekstur fangelsisins.

„Þeir mega ekki hitta hvorn annan en njóta auð­vitað sinna réttinda og þurfa úti­vist. Þegar það er verið að sinna ein­stak­lingum í ein­angrun eru alltaf tveir fanga­verðir sem þurfa að sinna honum. Það kemst voða lítið annað að, en sem betur fer hefur verið hægt að kalla út aukinn mann­skap,“ segir Garðar.

Hann segir að fyrir séu fanga­verðir að vinna 18 vaktir í mánuði og að á þeim sé mikið álag.

„Það er sárt að missa fríið og það er orðið erfitt að fá fólk í auka­vinnu,“ segir hann og að til að bregðast við því hafi skóla­fólk verið kallað inn á vaktir sem sé ekki sér­menntað sem fanga­verðir.

„Það er þyngri um­gjörð á öllu.“

Hefur þetta á­hrif á öryggi fanganna og ykkar?

„Það er aukið álag að sinna ein­angrunar­föngunum og það getur haft á­hrif á til dæmis lyfja­gjöf. Það getur komið fyrir að nauð­syn­leg um­önnun sé þannig ekki lengur í for­gangi.“

Er meiri spenna innan fangelsisins?

„Það þarf auð­vitað að passa að hóparnir nái ekki saman en það eru að­eins tvö lokuð úr­ræði á landinu, á Hólms­heiði og Litla-Hrauni, og við getum ekki sett annan á Litla-Hraun og hinn á Hólms­heiði. Þá eiga þeir bara fangelsin.“

Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Stíf keyrsla framundan

Páll Egill Win­kel fangelsis­mála­stjóri tekur undir á­hyggjur Garðars um þann fjölda sem situr núna í gæsluvarðhaldi.

„Ein­hverjir hafa losnað og aðrir komið í staðinn. Það er stíf keyrsla fram­undan næstu daga og við vitum ekki hvað þetta stendur lengi. Við þurfum að geta mannað þetta og sinnt okkar lög­bundnu verk­efnum og gerum það á­fram, eins og hingað til.“

Páll segir þetta flókið verk­efni. Mennirnir séu í ein­angrun vegna rann­sóknar­hags­muna og megi ekki hitta aðra eða eiga í sam­skiptum við umheiminn.

„Þegar það eru svona margir í svona mörgum klefum á sama staðnum þurfa starfs­menn að vera með 100 prósent at­hygli, og þeir eru það, eða á meðan þessu varir.“

Hann segir að á meðan það sé til fjár­magn þá sé hægt að sinna þessu verk­efni en segir að þetta sé mjög kostnaðar­samt vegna þess hve marga þarf að hafa á vakt hverju sinni.

„Ef við höfum fjár­magn þá getum við þetta.“