Af þeim 62 sem eru í gæsluvarðhaldi í fangelsum landsins eru 28 í einangrun á Hólmsheiði. Flestir í tengslum við stunguárásina á Bankastræti Club fyrir tæpri viku.
Garðar Svansson trúnaðarmaður fanga og fangavörður segir þetta hafa mikil áhrif á rekstur fangelsisins.
„Þeir mega ekki hitta hvorn annan en njóta auðvitað sinna réttinda og þurfa útivist. Þegar það er verið að sinna einstaklingum í einangrun eru alltaf tveir fangaverðir sem þurfa að sinna honum. Það kemst voða lítið annað að, en sem betur fer hefur verið hægt að kalla út aukinn mannskap,“ segir Garðar.
Hann segir að fyrir séu fangaverðir að vinna 18 vaktir í mánuði og að á þeim sé mikið álag.
„Það er sárt að missa fríið og það er orðið erfitt að fá fólk í aukavinnu,“ segir hann og að til að bregðast við því hafi skólafólk verið kallað inn á vaktir sem sé ekki sérmenntað sem fangaverðir.
„Það er þyngri umgjörð á öllu.“
Hefur þetta áhrif á öryggi fanganna og ykkar?
„Það er aukið álag að sinna einangrunarföngunum og það getur haft áhrif á til dæmis lyfjagjöf. Það getur komið fyrir að nauðsynleg umönnun sé þannig ekki lengur í forgangi.“
Er meiri spenna innan fangelsisins?
„Það þarf auðvitað að passa að hóparnir nái ekki saman en það eru aðeins tvö lokuð úrræði á landinu, á Hólmsheiði og Litla-Hrauni, og við getum ekki sett annan á Litla-Hraun og hinn á Hólmsheiði. Þá eiga þeir bara fangelsin.“

Stíf keyrsla framundan
Páll Egill Winkel fangelsismálastjóri tekur undir áhyggjur Garðars um þann fjölda sem situr núna í gæsluvarðhaldi.
„Einhverjir hafa losnað og aðrir komið í staðinn. Það er stíf keyrsla framundan næstu daga og við vitum ekki hvað þetta stendur lengi. Við þurfum að geta mannað þetta og sinnt okkar lögbundnu verkefnum og gerum það áfram, eins og hingað til.“
Páll segir þetta flókið verkefni. Mennirnir séu í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna og megi ekki hitta aðra eða eiga í samskiptum við umheiminn.
„Þegar það eru svona margir í svona mörgum klefum á sama staðnum þurfa starfsmenn að vera með 100 prósent athygli, og þeir eru það, eða á meðan þessu varir.“
Hann segir að á meðan það sé til fjármagn þá sé hægt að sinna þessu verkefni en segir að þetta sé mjög kostnaðarsamt vegna þess hve marga þarf að hafa á vakt hverju sinni.
„Ef við höfum fjármagn þá getum við þetta.“