Sólveig Anna greinir frá því í færslu sem hún birti, nú fyrir stundu, í tilefni dagsins að 250 umsóknir hafi borist skrifstofu Eflingar, en umsóknarfrestur rann út í gær. Nú taki við vinna við að skoða og meta umsóknirnar. Í pistli sínum greinir Sólveig einnig frá því að erfiðlega hafi gengið við að tryggja grunnþjónustu við félagsfólk vegna mikils fjölda skráðra veikinda meðal starfsfólks skrifstofunnar, sem mörg hver munu á næstu dögum klára uppsagnarfrest sinn. Þá segir Sólveig að stjórn Eflingar hafi sett í forgang að greiða út sjúkradagpeninga, þeir verða greiddir út á morgun til um bil 190 félaga og nemur fjárhæðin samtals 70 milljónum króna.
Í færslu sinni segist hún vonast til að stjórnin fái nú vinnufrið til þess að breyta og endurskipuleggja starfsemi Eflingar. Atburðarás síðustu missera segir hún hafa verið skrýtna, átökin hafi verið hörð og erfið. Það hafi þó sannast á fjölmennum félagsfundi að hún og félagar hennar í Baráttulistanum hafi fullt og afdráttarlaust umboð til þess að stýra félaginu.
Í færslunni fer hún fljótt yfir feril sinn sem formaður Eflingar frá því að hún tók fyrst við vorið 2018. Þar greinir hún frá því hvernig hún hafi orðið þess snemma áskynja að verkalýðsforystan bjó við annan veruleika en þeir tekjulægstu í samfélaginu. Og segir
„Fyrir okkur virtist verkalýðsforystan lifa í allt öðrum efnislegum heimi en við. Þar voru launin há, og fólk var búið að koma sér rækilega fyrir sem meðlimir í íslenskri milli og efri-millistétt.“
Í færslunni segir hún að stjórnin sem nú sé við völd Eflingar sé af öndverðu meiði. Hópurinn sé skipaður fólki með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn, sem aðhyllist fjölmargar ólíkar skoðanir á málum skoðanir á málum. Eitt sameini þó þennan hóp og það er að allir meðlimir tilheyra stétt vinnuaflsins.