27 einstaklingar greindust með veiruna innanlands í gær en af þeim sem greindust voru tveir utan sóttkvíar. Ekki hafa greinst fleiri smit innanlands á einum sólarhring frá 3. nóvember 2020.

Alls eru nú 97 í einangrun með virkt smit og 386 í sóttkví en þeim hefur fjölgað töluvert um helgina. Af þeim sem greindust í gær voru 20 með einkenni.

Á landamærunum greindust tveir með veiruna en þeir voru báðir með mótefni. Alls eru nú 922 í skimunarsóttkví.

Tæplega þúsund sýni voru tekin innanlands í gær og tæplega 550 á landamærunum.

Fjölmargir greindust með veiruna um helgina þar sem smit voru meðal annars rakin til leikskólans Jörfa í Reykjavík og voru fæstir í sóttkví við greiningu. Smitin mátti þá rekja til sóttkvíarbrots á landamærunum.

Tveir greindust með veiruna á föstudag, þar sem hvorugur var í sóttkví, og þrettán á laugardag, þar sem þrír voru ekki í sóttkví. Þrír greindust með virkt smit á landamærunum á föstudag og tveir á laugardag.

Boðað hefur verið til upplýsingafundar þar sem farið verður yfir stöðuna en á fundinum munu Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, og Alma Möller landlæknir, fara yfir framvindu COVID-19 hér á landi.

Fréttin verður uppfærð.