Afkoma ríkissjóðs versnar á næsta ári um 192 milljarða króna vegna beinna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins. Alls er gert ráð fyrir 264 milljarða króna halla á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 sem lagt er fram á Alþingi í dag, samhliða fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025.

Sam­an­lagður halli ársins í ár og því næsta gæti numið um 600 millj­örðum króna.

„Það hef­ur orðið al­gjört hrun í af­komu rík­is­sjóðs,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í morgun.

Þyngst vegur samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa en hann nemur um 89 milljarða króna.

Aðgerðir til að bregðast við heimsfaraldrinum, með því að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu, flýtingu á lækkun bankaskatts og niðurfellingu gistináttaskatts, kosta ríkissjóð um 17 milljarða króna. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 milljarða króna.

Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð að kosta ríkissjóð 35 milljarða króna, er þar inni fjárfestingar- og uppbyggingarátak, efling háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur lækki um 27 milljarða króna.

„Við trúum því að þetta sé tímabundið ástand og ætlum að vinna okkur út úr því,“ sagði Bjarni.