Rúmlega 26 þúsund umsóknir hafa borist Vinnumálastofnun frá einstaklingum í minnkuðu starfshlutfalli frá því að opnað var fyrir umsóknir.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir mikið álag á starfsfólki Vinnumálastofnunar. Í stað þess að hringja gæti fólk farið inn á heimasíðuna og fundið svör í dálknum spurt og svarað.

Starfsfólk Vinnumálastofnunar fær um þrjú þúsund símtöl á dag en um 700-800 tölvupósta á sólarhring.

„Við reynum að setja okkur það markmið að svara innan þriggja daga en það er ekki alveg klárt hvort að okkur takist það alltaf,“ sagði Unnur.

Flestar símhringingar snúast um það hvort umsókn einstaklinga hafi borist en Unnur bendir almenningi á að hægt sé að finna þær upplýsingar á vefnum á mínum síðum. Það tæki styttri tíma að finna það á netinu en að hringja.