Rúmlega 2.500 manns er saknað á Bahamaeyjum eftir að fellibylurinn Dorian fór yfir norðanverðan eyjaklasann í byrjun mánaðarins. Talan mun að öllum líkindum lækka á næstu dögum þar sem enn á eftir að bera listann saman við íbúa sem gista nú í neyðarskýlum. Minnst 70 þúsund manns eru heimilislausir á eyjunum eftir hamfarirnar.

Staðfest er að 50 hafi látist af völdum stormsins en yfirvöld búast við að talan muni rísa til muna á næstu dögum. Tugir þúsunda þarfnast enn neyðaraðstoðar.

Um fimm þúsund manns eru enn á Abaco eyjum og kljást við afleiðingar hamfaranna.
Fréttablaðið/Getty

Þúsundir heimila jöfnuð við jörðu

Eyðilegging blasir víða við þar sem um 60 prósent húsa voru jöfnuð við jörðu á norðanverðum eyjaklasanum. Fimm þúsund manns voru flutt af Abaco eyjum og Grand Bahama, sem urðu verst úti í fellibylnum, á síðustu dögum. Íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín þar sem ólíft var orðið á stórum svæðum eyjanna vegna lyktar af rotnandi líkjum ásamt drykkjar- og matarskorts.

Dorian náði landi á eyjunum fyrsta september og var yfir Abaco eyjum og Grand Bahama í rúmlega tvo sólarhringa. Fellibylurinn er sá öflugasti sem hefur riðið yfir eyjarnar síðan mælingar hófust og er sá næststerkasti sem hefur mælst á Atlantshafi, en vindhraðinn náði yfir 82 metra á sekúndu.

70 þúsund manns eru heimilislausir eftir storminn.
Fréttablaðið/Getty