„Þátttaka landsmanna í undirskriftasöfnuninni „Nýju stjórnarskrána strax!” hefur farið langt fram úr vonum og ekkert lát er á undirskriftum,” segir í tilkynningu frá Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá.

„25 þúsund eru 10 prósent kosningabærra Íslendinga og táknræn tala því ef nýja stjórnarskráin hefði þegar tekið gildi gæti þessi fjöldi lagt fram lagafrumvarp á Alþingi.“

Upphaflegt markmið herferðarinnar var að safna 25 þúsund undirskriftum fyrir 20. október. Það markmið náðist hins vegar í gær langt fyrir settan dag. „Þess vegna hefur verið ákveðið að setja markið enn hærra og stefna að 30 þúsund undirskriftum fyrir 20. október.“

Þjóðþing virði úrslit kosninga

Tuttugasti október er mikilvæg dagsetning fyrir skörunga nýju stjórnarskrárinnar þar sem á þeim degi árið 2012 samþykktu kjósendur að tillögur sem fyrir þau voru lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands.

„Það lýsir bágborinni stöðu í lýðræðisríki að almennir borgarar þurfi að krefja þjóðþing sitt um að það virði úrslit kosninga sem það sjálft boðaði til fyrir bráðum átta árum.“ Sú sé þó staðan að mati samtakanna. „Gríðarleg þátttaka í undirskriftasöfnuninni sýnir hins vegar að landsmenn ætla ekki að sætta sig við þessa framkomu.“

Samfélagsmiðlar loga

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá hafa undan­farna mánuði staðið í ströngu við söfnun undir­skrifta meðal þeirra sem krefjast þess að Al­þingi lög­festi nýja stjórnar­skrá.

Hópur ungs fólks með Ósk Elfardsdóttur og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur í fararbroddi hefur einnig vakið athygli fyrir myndbönd sem hafa verið gerð um málið. Umræða um nýju stjórnarskránna hefur tröllriðið samfélagsmiðlum síðustu vikur og vakti auglýsing samtakanna landsathygli. Í henni mátti sjá þjóð­þekkta leikara ræða fisk­veiði­stjórnunar­kerfið og stjórnar­skrána.