Franskur karlmaður hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að hafa myrt konu sína og brennt lík hennar í máli sem skók franskt þjóðfélag. BBC greinir frá.

Brennt lík Alexiu Daval fannst í skóglandi nálægt bænum Gray í norðausturhluta Frakklands í október 2017.

Eiginmaður hennar, Jonathann Daval, tilkynnti upphaflega um hvarf hennar til lögreglu, sagði að hún hafi farið út að hlaupa og ekki skilað sér aftur heim.

Síðar játaði hann að hafa barið eiginkonu sína til bana og brennt lík hennar.

Þegar dómurinn var kveðinn upp við franska dómstóla í gær, horfði hann á foreldra Alexiu og baðst afsökunar.

Saksóknarar sögðu að málið væri nánast hinn fullkomni glæpur og kröfðust lífstíðardóms yfir Jontahann Daval.

Jonathann Daval ásamt foreldrum Alexiu á minningarathöfn í nóvember 2017. Hann játaði ekki á sig morðið fyrr en í janúar 2018.
Fréttablaðið/AFP

Alexia Daval starfaði í banka en hún var 29 ára gömul þegar að hún var myrt. Eiginmaður hennar tilkynnti hana sem fyrr segir týnda í október 2017 og hélt því fram við lögreglu að hún hafi farið út að hlaupa og ekki skilað sér aftur heim. Lík hennar fannst tveimur dögum síðar, hálf brennt og þakið greinum í skógi, langt frá venjulegri hlaupaleið hennar.

Andlát hennar vakti mikla athygli, en um hundrað þúsund manns komu saman í bænum Gray til að minnast hennar. Konur víðs vegar um Frakkland minntust henar einnig með táknrænum hlaupum. Eftir að lík hennar fannst kom eiginmaður hennar fram á blaðamannafundi ásamt tengdaforeldrum sínum og grét.

Málið skók franskt samfélag en um hundrað þúsund manns komu saman í bænum Gray í norðaustur Frakklandi til að minnast hennar.
Fréttablaðið/AFP

Þremur mánuðum síðar tilkynntu saksóknarar að Daval hefði játað að hafa myrt eiginkonu sína. Hann neitaði upphaflega að hafa brennt líkið en á síðasta ári, um tveimur árum eftir morðið, viðurkenndi hann það einnig.

Hann hefur nokkrum sinnum breytt framburði sínum í málinu. Fyrr í vikunni, var hann spurður af dómaranum hvort hann hafi verið einn að verki þegar hann myrti eiginkonu sína, hann svaraði játandi.