39 einstaklingar eru nú í einangrun með staðfest COVID-19 smit hér á landi og bættust 10 tilfelli við í gær.

Þar af eru 28 innanlandssmit að sögn Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur, staðgengils sóttvarnalæknis. Þá liggur einn á sjúkrahúsi með COVID-19.

24 smit tengjast stórri hópsýkingu á suðvesturhorninu en þar er um að ræða fimm aðskilda anga sem tengjast saman.

4 einstaklingar tilheyra annarri hópsýkingu en áhyggjuefni er að þar er einn ótengdur aðili á meðal. Bendir slíkt til að fleiri séu smitaðir sem tengi aðilana saman.

11 smit koma erlendis frá og hefur einn þeirra einstaklinga sett af stað aðra hópsýkinguna, að sögn Kamillu.

215 eru nú í sóttkví en allar líkur eru á því að þeim eigi eftir að fjölga í dag eftir því sem smitrakningu vindur fram.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í Safnahúsinu rétt í þessu þar sem breytingar á sóttvarnaraðgerðum voru kynntar vegna hópsýkinga síðustu daga.

Þar kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að fjöldasamkomur yrðu takmarkaðar við 100 manns og að tveggja metra reglan yrði tekin upp á ný.

Breytingarnar taka gildi á hádegi á morgun.

Víðir Reynisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að ekki sé vitað hver uppruninn sé að þessum innanlandssmitum. Í ljósi þess sé mikilvægt að taka þessu föstum tökum til að komast til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.