Alls eru tuttugu og þrjú smituð af CO­VID-19 kóróna­veirunni á Akur­eyri og fjölgar smitum þar stöðugt milli vikna. Tveir sýndu mikil ein­kenni sjúk­dómsins og voru lagðir inn á sjúkra­húsið á Akur­eyri en báðir hafa nú út­skrifast.

256 sýni hafa verið tekin á heilsu­gæslu Akur­eyrar að sögn Jóns Torfa Hall­dórs­sonar, yfir­læknis á Akur­eyri. Í sam­tali við RÚV sagði Jón 22 af þeim sýnum hafa verið já­kvæð eða tæp­lega níu prósent.

Um 36 prósent þeirra smituðu voru þegar í sótt­kví við greiningu sem sýnir mikil­vægi sótt­kvíar að mati Jóns.

Hlíðar­skóli í sótt­kví

Fyrsta smit greindist á Akur­eyri fyrir tveimur vikum og hefur sýna­taka aukist með tímanum. Nú eru tekin á milli tuttugu og fjöru­tíu sýni á dag sem sé mikið í bæjar­fé­lagi af þessari stærð.

Nem­endur og starfs­fólk Hlíðar­skóla á Akur­eyri sæta nú 14 daga sótt­kví eftir að starfs­maður greindist með CO­VID-19 veiruna. Aðrir skólar bæjarins eru enn opnir.