Farþegaferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði á níunda tímanum í morgun. Alls voru 23 farþegar og 11 bílar um borð. Farþegarnir voru flestir að snúa aftur til síns heima en einhverjir að snúa aftur til vinnu sem hafa aðsetur hér á landi.

„Ferðin gekk ljómandi vel og allir farþegarnir voru sendir beint í sóttkví," segir Ósk Ómarsdóttir hjá Smiril Line á Seyðisfirði. Hún tók á móti farþegum í morgun.

Mikill viðbúnaður var hjá Smiril Line vegna COVID-19 og sérstök viðbragsðsáætlun var unnin í samstarfi við almannavarnir. „Allir farþegarnir voru hitamældir áður en þeir fóru um borð í Færeyjum og Danmörku og Norræna er með sérstaka viðbragðsáætlun ef að veikindi koma upp um borð. Ef að veikindi koma upp um borð þá verða aðstæður metnar hverju sinni, hvar ferjan er staðsett og hvers lenskur farþeginn er. Upplýsingagjöf var veitt til farþega um borð en einnig þegar að þeir komu í land hér á Seyðisfirði," segir Ósk.

Lögreglan og tollverðir tóku á móti farþegum og veitti frekari upplýsingar um hvað tæki við og hvaða reglur eru í gildi fyrir fólk sem er að koma til landsins. Farþegarnir, sem voru allir á bíl, keyrðu beint úr ferjunni og í sína sóttkví.

Norræna er nú komin á áætlun og siglir með talsvert marga farþega á morgun aftur til Færeyja og Danmerkur. „Þetta eru allt einstaklingar sem að áttu bókað í mars eða apríl og eru búin að bíða eftir því að komast aftur heim," segir Ósk að lokum.