Alls greindust 22 með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á vef covid.is. Um er að ræða töluverða fækkun milli daga en í gær greindust 52 með veiruna. Ekki hafa færri smit greinst frá 18. júlí síðastliðnum, þegar fjórða bylgja faraldursins var að hefjast.

Af þeim sem greindust voru 17 með einkenni en fimm greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. Áfram eru fleiri þeirra sem eru að greinast óbólusettir en 12 sem greindust í gær voru óbólusettir. Af þeim sem greindust í gær voru átta utan sóttkvíar.

Í heildina eru nú 687 í einangrun en þeim fækkar um 69 milli daga. Sömuleiðis fækkar í sóttkví milli daga en nú eru 1.463 í sóttkví, fækkar þeim um tæplega 200 manns. Líkt og fyrri helgar voru færri sýni tekin í gær heldur en á virkum dögum en ríflega 1.600 sýni voru tekin innanlands í gær.

Tvö smit greindust við landamæraskimun í gær en ekki liggur fyrir hvort um virkt smit sé þar að ræða og er beðið eftir mótefnamælingu. Ríflega 700 sýni voru tekin við landamæraskimun í gær og eru nú 617 í skimunarsóttkví.

Á Landspítala eru nú níu inniliggjandi en þeim fækkar um einn milli daga. Enginn er á gjörgæslu með Covid.

Fréttin hefur verið uppfærð.