Á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún dvelja 216 gestir eftir síðasta flug í gær, þegar 50 gestir bættust við.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossinn, segir að í heildina litið hafi gengið vel þó að einn gestur hafi reynt að yfirgefa hótelið. Flestir sýni aðstæðunum skilning og hagi sér samkvæmt reglum.

„Að sjálfsögðu er fólk misánægt við að verja sinni sóttkví hér og það er eitthvað sem maður hefur skilning á. Fólk hafði önnur plön og misvel upplýst um stöðuna áður en það kom,“ segir Gunnlaugur.

Aðspurður segir hann gestina sýna starfsfólki Rauða krossins mikinn skilning. Þeirra hlutverk sé að tryggja að fólk hafi fæði og gætt sé að sóttvörnum og dvölin verði sæmileg.

„Margir hefðu viljað vera í sinni sóttkví annars staðar. Ég held að það sé jákvætt að skorið sé um það hvernig aðgerðir stjórnvalda samræmast lögum.“

Horfa á sjónvarpið og lesa bækur

Gestir á hótelinu fá þrjár máltíðir og dag og margir hafa pantað sér aukalega sendingar frá matsölustöðum og beðið ættingja og vini um að koma með pakka til sín með hreinlætisvörum, nammi eða bókum.

„Margir nota tímann og horfa á sjónvarpið og lesa bækur. Þónokkrir hafa fengið bækur sendar til sín. Kannski er einhver byrjaður að skrifa bók, það væri gaman að heyra af því,“ segir Gunnlaugur.

Nokkrir hafa tekið upp á því að blogga um reynslu sína á sóttkvíarhótelinu og deila myndum og myndböndum. Þar á meðal er Egill Halldórsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Wake Up Reykjavík, en hann nýtir tímann í jóga, tölvuleiki og æfingar.

Skjáskot úr Insta „story“ hjá Agli.
Mynd: Skjáskot

Í morgun lenti flugvél frá London en þeir farþegar fóru ekki á sóttvarnarhúsið við Þórunnartún. Von er á tveimur flugvélum síðar í dag frá Lettlandi.