Lögreglan stöðvaði ökumann sem keyrði á 155 kílómetra hraða austan Mývatns í dag. Viðurlög við slíkri háttsemi er ökuleyfissvipting og 210 þúsund króna sekt.

„Það er í raun dapurlegt að sumir ökumenn "þurfi" að aka um vegi landsins á jafnvel 65 km yfir leyfilegum hámarkshraða,“ segir Lögreglan á Norðurlandi eystra í færslu á Facebook.

Lögreglan segist vona að umræddur ökumaður hugsi sinn gang og komi betur stemmdur til aksturs síðar.

„Lang flestir aka þó af ábyrgð, gætni og tillitssemi og bera sjálfum sér gott vitni og eru öðrum góð fyrirmynd.“

Þá minnir lögreglan á að vetur sé í nánd og að ökumenn ættu að fara að huga að því að skipta yfir vetrardekk.