Dóm­stóll í Úkraínu hefur dæmt rúss­neskan her­mann, Vadim Shishimarin, í lífs­tíðar­fangelsi fyrir stríðs­glæp. Vadim var ask­felldur fyrir morð á 62 ára karl­manni, Oleksandr Sheli­pov, í þorpinu Chupak­hivka í norð­austur­hluta Úkraínu þann 28. febrúar síðast­liðinn.

BBC greinir frá dóms­upp­kvaðningunni.

Vadim játaði sök í málinu en hann var á­kærður fyrir að skjóta Sheli­pov, sem var ó­vopnaður, til bana. Hann sagðist hafa farið eftir skipunum yfir­manna sinna en við dóms­upp­kvaðninguna bað hann ekkju Oleksandr af­sökunar. Fleiri stríðs­glæpir eru til rann­sóknar í Úkraínu og gæti dregið til frekari tíðinda á næstu vikum.

Vadim, sem er 21 árs, lýsti því fyrir dómi að hann og aðrir úr her­sveit hans hafi verið á ferð á bíl í þorpinu Chupak­hivka, skömmu eftir að úkraínski herinn réðst að her­sveit Vadims. Sheli­pov stóð úti á götu og var að tala í símann þegar yfir­maður Vadims skipaði honum að skjóta á hann. Sagðist Vadim að lokum hafa látið undan.