Dómstóll í Úkraínu hefur dæmt rússneskan hermann, Vadim Shishimarin, í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæp. Vadim var askfelldur fyrir morð á 62 ára karlmanni, Oleksandr Shelipov, í þorpinu Chupakhivka í norðausturhluta Úkraínu þann 28. febrúar síðastliðinn.
BBC greinir frá dómsuppkvaðningunni.
Vadim játaði sök í málinu en hann var ákærður fyrir að skjóta Shelipov, sem var óvopnaður, til bana. Hann sagðist hafa farið eftir skipunum yfirmanna sinna en við dómsuppkvaðninguna bað hann ekkju Oleksandr afsökunar. Fleiri stríðsglæpir eru til rannsóknar í Úkraínu og gæti dregið til frekari tíðinda á næstu vikum.
Vadim, sem er 21 árs, lýsti því fyrir dómi að hann og aðrir úr hersveit hans hafi verið á ferð á bíl í þorpinu Chupakhivka, skömmu eftir að úkraínski herinn réðst að hersveit Vadims. Shelipov stóð úti á götu og var að tala í símann þegar yfirmaður Vadims skipaði honum að skjóta á hann. Sagðist Vadim að lokum hafa látið undan.