Kemi ehf. fékk í nótt sendar 200.000 and­lits­grímur til Ís­lands. Her­mann Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri Kemi, segir eftir­spurnin eftir and­lits­grímum vera gríðar­leg um þessar mundir.

„Ég náði þessu hingað heim yfir helgina. Ég pantaði þetta á fimmtu­daginn og þetta kom til landsins í nótt,“ segir Her­mann í sam­tali við Frétta­blaðið.

Einnota gríma sem er til sölu á heimasíðu Kemi.
Ljosmynd/Kemi ehf.

„Stál­heppnir að finna aðila sem gat hjálpað okkur með þetta“

Spurður um hvernig gengur að koma and­lits­grímunum í sölu segir Hermann að allar grímurnar voru seldar áður en þær lentu á Íslandi. „Þetta er allt selt. Þetta fór allt í bið­pantanir. Fólk sem var að bíða eftir af­greiðslu,“ segir Her­mann og bætir við að Kemi fær aðra sendingu af grímum til landsins um helgina.

Her­mann segir að markaðurinn með andlitsgrímur sé afar erfiður um þessar mundir.

„Það er erfitt að komast í þetta bara út af á­standinu í Evrópu og Banda­ríkjunum þá er allur heimurinn að hamstra grímur. Við vorum bara stál­heppnir að finna aðila sem gat hjálpað okkur með þetta,“ segir Hermann.