Listamannasíða Hugleiks Dagssonar á Facebook var lokað í dag og er ekki hægt að komast inn á hana eða finna með leitarvél síðunnar.

„Það er allavega búið að „unpublisha“, ég kemst inn á hana sjálfur en, hún er horfin öllum öðrum,“ segir Hugleikur. Í mynd sem Hugleikur birti á sinni persónulegu síðu kemur fram að búið sé að taka síðuna út þar sem hún fari gegn „almennum gildum Facebook.“

Aðspurður hvort hann hafi fengið tilkynningu um málið segist Hugleikur ekki vera viss en hann kannast við að hafa áður fengið viðvaranir frá Facebook. Eins og lesendur kannast við eru brandarar Hugleiks oft á tíðum heldur svartir og sækja innblástur sinn í gálgahúmor.

„Þetta eru þó brandarar sem eru um rasisma og brandarar sem eru um heimilisofbeldi og svoleiðis og hvort sem þú ert sálarlaust algrím eða heilalaus manneskja þá virðist vera að það sé stórt mengi þarna úti af einhverjum sem misskilja það. Ég get alltaf sagt „þú skilur þetta ekki, þetta er brandari" en það er bara samtal sem er afskaplega leiðinlegt,“ segir Hugleikur og bætir við:

„Það kemur af og til fyrir að ég sé settur í smá útlegð. En þá hefur það verið kannski vika í mesta lagi en oftast bara sólahringur.“

Teikning eftir Hugleik Dagsson.
Mynd/Eyþór Árnason

Síða Hugleiks er með um 202 þúsund fylgjendur en hann segir að þetta sé hans stærsta samfélagsmiðla síða. Hugleikur sér hinsvegar ekki fram á mikið tekjutap vegna málsins.

„Maður getur alveg verið að eyða tíma sínum í að rífast við vélina en maður getur líka bara notið lífsins“ segir Hugleikur og bætir við: „Þetta er ekkert stress þar sem ég er ennþá á Instagram og Twitter. Instagram hefur stundum fjarlægt myndir hjá mér og mér finnst þeir vera aðeins skýrari með sínar reglur. En Twitter virðist bara vera villta vestrið."

„Ég passa mig samt alveg, til dæmis voru brandarar um sjálfsmorð einu sinni ekki bannaðir á Facebook, en það er svona nýlega bannað og ég skil það bara ágætlega.“

Varðandi framhaldið segir Hugleikur að þetta sé í raun kjörið tækifæri til þess að skoða hve miklu máli Facebook skipti fyrir hann. „Ég get skoðað sölutölurnar eftir tvo mánuð og séð hvernig það virkar," segir Hugleikur að lokum.