Gífurleg aukning var í fjölda frávísana á landamærunum frá 2017 til 2018, eða úr 54 í 161. Um er að ræða tæplega 200 prósenta aukningu. Þetta kemur fram í ársskýrslu embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum sem var birt fyrir nokkru. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.

Líklegasta skýringin er talin vera aukin umferð fólks um flugstöðina en jafnframt vegna aukinnar notkunar SIS og Interpol gagnagrunna.

Frávísun er beitt þegar einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði fyrir komu inn á Schengen svæðið að því er fram í kemur í tilkynningu lögreglu. Í flestum tilvikum, eða 142, var ástæða frávísunar vöntun á vegabréfsáritun.

Metár í fölsunarmálum

Árið 2018 var metár í fölsunarmálum og skilríkjamálum í flugstöðinni sjálfri og komu upp 98 skilríkjamál. Svokölluð grunnfölsun var algengust á árinu 2018 en breytifölsun árið á undan. Sérfræðingar vegabréfarannsóknastofunnar eru kallaðir til aðstoðar daglega við annars stigs skoðun á landamærastöðinni í flugstöðinni þegar þurfa þykir vegna framvísaðra, grunsamlegra skilríkja. Nærri lætur að sérfræðingarnir úrskurði um 10% þeirra skilríkja sem þeir skoða fölsuð

Flestir þeirra sem gripnir voru með ólögmæt skilríki á Keflavíkurflugvelli komu til landsins frá Danmörku, Spáni, Þýskalandi og Ungverjalandi.

Landamæravörðum ber að fletta upp skilríkjum allra einstaklinga sem fara um ytri landamærin í Schengen upplýsingakerfinu og tilteknum gagnagrunnum sem geyma upplýsingar um stolin, týnd eða ógild ferðaskilríki. Í hvert sinn sem fram kemur smellur þarf að fara fram ítarleg skoðun á aðilanum og/eða skilríkinu og útbúa tilkynningu um smellinn til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra.