Björgunar­sveitir á norðan­verðum Vest­fjörðum tóku í dag þátt í flug­slysa­æfingu sem haldin var á Ísa­fjarðar­flug­velli. Fjöldi við­bragðs­aðila tók þátt og voru þátt­tak­endur á æfingunni í heildina rétt tæp­lega tvö hundruð manns. Á æfingunni voru æfð við­brögð við í­mynduðu flug­slysi.

„Í rauninni er verið að virka eins og ef það verður eitt­hvað flug­at­vik, í upp­hafi er boðað hættu­stig þegar flug­vélin á í vanda og svo þegar, og ef, hún brot­lendir þá er virkjað neyðar­stig. Í þessi til­felli brot­lenti vélin og þá er flug­slysa­á­ætlun flug­vallarins virkjuð og allir þeir aðilar sem skráðir eru í við­bragðs­stöðu bregðast við,“ segir Elva Tryggva­dóttir, verk­efnis­stjóri neyðar­við­búnaðar hjá ISAVIA og æfinga­stjóri æfingarinnar í dag.

Æfingin er haldin á vegum ISAVIA og Al­manna­varna en þeir sem taka þátt eru björgunar­sveitir, Rauði krossinn, lög­regla, slökkvi­lið, flug­valla­þjónustan og sjúkra­húsið á Ísa­firði. „Í raun allir við­bragðs­aðilar á svæðinu,“ segir Elva.

Þriggja mánaða ferli

Flug­slysa­æfingin er þrjá mánuði í undir­búningi, að sögn Elvu. „Við reynum að á­kveða með nokkurra mánaðar fyrir­vara hve­nær æfingin er haldin og þá geta einingar á svæðinu byrjað að undir­búa sig.“

„Síðan í að­draganda bjóðum við upp á fræðslu fyrir einingarnar, þetta er til þess að styrkja og efla það við­bragð sem er á svæðinu,“ segir hún.

Skrifborðsæfingar einnig mikilvægar

„Daginn fyrir stóru verklegu æfinguna, þá erum við með skrifborðsæfingar þar sem stjórnendur verkþátta koma saman og æfa þetta saman á svona skrifborðsæfingu og það gerir þeim betur kleift að sjá í rauninni heildarmyndina betur og eru þá betur í stakk búin að standa sig daginn eftir," segir Elva.

„Það er lykill í þessu og mikið atriði að við séum einmitt með fræðsluna á undan, taka síðan þessa skrifborðsæfingar og síðan æfinguna. Það nær líka mesta hrollinum úr fólki.“

Notuð eru ýmis tæki til að fá sem mest úr æfingunni.
Myndir frá æfingastjórn

Eins raun­veru­legt og hægt er

„Flug­slysa­æfingar eru al­manna­varna­æfingar,“ segir í frétta­til­kynningu frá Lands­björgu, en slíkar æfingar eru haldnar á fjögurra ára fresti á öllum á­ætlunar­flug­völlum. Mikið er lagt í undir­búning fyrir æfingarnar til þess að gera æfingarnar sem raun­veru­legastar fyrir þátt­tak­endur.

Elva segir sér­stakan hóp sjá um undir­búning á vett­vanginum og leikurum sem taka þátt í æfingunni. „Þannig að fólk geti sett sig í stellingar fyrir raun­veru­leikann þegar að því kemur.“

Tuttugu og átta sjálf­boða­liðar voru fengnir til að leika í æfingunni. „Það er yfir­leitt verið að miða við svona þann far­þega­fjölda sem kemur í þeim vélum á þeim á­fanga­stað sem er. Eins og hér er Dash-8 yfir­leitt að koma og þá miðum við far­þega­fjölda út frá því og eins með þátt­töku á æfinguna,“ segir Elva.

Flug­slysa­æfingar byggja á flug­slysa­á­ætlun sem gerð hefur verið fyrir hvern flug­völl en það skipu­lag á einnig við í öðrum hóp­slysum. „Æfingarnar eru því afar gagn­legar fyrir við­bragðs­kerfið og tryggja að vinnu­brögð aðila séu sam­hæfð á öllum stjórn­stigum,“ segir í frétta­til­kynningunni.

Að æfingu lokinni er farið yfir hvað vel var gert og lært af því sem betur hefði mátt fara.

Sjúkraflutningamenn hlúa að leikara.
Myndir frá æfingastjórn
Þriggja mánaða undirbúningur er að baki.
Myndir frá æfingastjórn
Reynt er að gera æfinguna eins raunverulega og hægt er.
Myndir frá æfingastjórn
Fjöldi viðbragðsaðila tók þátt í æfingunni.
Myndir frá æfingastjórn
Sérstakur hópur sér um undirbúning á vettvangi og leikurum.
Myndir frá æfingastjórn
Við æfinguna er neyðarstig flugvallarins virkjað.
Myndir frá æfingastjórn