Mikið hefur verið um innkallanir á vörum sem innihalda sesamfræ að undanförnu og hefur Matvælastofnun alls tilkynnt um 20 innkallanir frá því í október.

Meðal þess sem kaupmenn hafa þurft að fjarlægja úr hillum sínum eru brauðmjöl, sesamolíu, granóla, brauðstangir, kornblöndu og lífrænt tahini. Þá var einnig komið í veg fyrir að sumar vörur færu í sölu.

Að sögn Herdísar M. Guðjónsdóttur, fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun eiga vörurnar það sameiginlegt að innihalda ólöglegt varnarefni sem beri heitið etýlen oxíð.

Vildu bregðast við salmonellu

Einskorðast aðgerðirnar við sesamfræ sem koma frá Indlandi og hafa slíkar innkallanir átt sér stað um allan heim. Herdís segir að eftirlitsaðilar hafi aukið eftirlit með fræjunum vegna salmonellumengunar.

Núverandi inköllunarhrina hafi byrjað eftir að upp komst í haust að indverskir framleiðendur væru farnir að nota gasið etýlen oxíð í miklum mæli en það er meðal annars notað til að sótthreinsa skurðstofur.

„Þeir hafa trúlega verið að setja gasið inn í gámana eða þær geymslur sem sesamfræ eru geymd sem veldur því að salmonellan drepst en þetta er hins vegar algjörlega ólöglegt efni til að nota við matvælaframleiðslu,“ segir Herdís.

Efnið er talið vera krabbameinsvaldandi, eitrað mönnum og geta ollið frumustökkbreytingum.

„Auðvitað er þetta í það litlu mæli að það tekur ekki lífið af fólki en þetta snýst líka um prinsippið að vera ekki að nota efni í matvæli sem eru bönnuð.“

Sérstaklega alvarlegt þegar um er að ræða lífrænar vörur

Eru indverskir framleiðendur nú sagðir hafa bætt ráð sitt eftir að hafa staðið frammi fyrir því að sjá marga stærstu útflutningsmarkaði sína lokast.

„Þetta er mjög alvarlegt fyrir þau fyrirtæki sem eru með lífrænt vottaðar vörur því það má ekki vera neitt varnarefni í lífrænum mat. Þá geta indversku fyrirtækin misst leyfið og það er mjög erfitt að komast aftur á jákvæðan lista.“

Sjá má yfirlit yfir þær vörur sem innkallaðar hafa verið úr verslunum á vef Matvælastofnunnar.