Sumarið hefur verið ó­venju­sól­ríkt hér á höfuð­borgar­svæðinu en síðustu 78 daga, það er í maí, júní og það sem af er júlí hefur sólin skinið í alls 642,7 stundir. Það eru alls 26,7 sólarhringar.

Ef litið er til síðustu ára voru stundirnar, sam­kvæmt upp­lýsingum frá Veður­stofu Ís­lands, fleiri árið 2012, sem virðist hafa verið ó­venju­lega sól­ríkt sumar í Reykja­vík. Alls voru þær 747,3 árið 2012 en hafa svo ekki verið fleiri nema ef litið er aftur til 2007.

Þó að saman­lagt séu stundirnar ó­venju­margar síðustu 78 daga, þá eru stundirnar í meðal­lagi fyrstu 17 dagana í júlí.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Veður­stofu Ís­lands hafa þær alls verið um 102 í júlí, en voru að meðal­tali 103 síðustu 10 árin. Ef litið er til síðustu 20 ára eru þær þó yfir meðal­lagi.

Stundirnar voru fleiri fyrstu 17 dagana í 2016 en þá voru þær 146, 2012, 2011, 2010, 2009. Lang­flestar voru þær svo 2007.

Eins og margir muna var á­standið sér­stak­lega slæmt í fyrra, þegar rigndi mikið, en þá töldu stundirnar að­eins 45,6 fyrstu 17 daga júlí­mánaðar.

Eflaust verður fjölmennt á Klambratúni í dag.

Fleiri sólskinsstundir í Reykjavík en á Akureyri

Á heima­síðu Veður­stofunnar má sjá yfir­lit fyrir maí og júní bæði hér í Reykja­vík og á Akur­eyri.

Júní var mjög sól­ríkur, einkum um landið sunnan- og vestan­vert. Sól­skins­stundir í Reykja­vík í júní mældust alls 303,9 sem er 142,6 stundum yfir meðal­lagi áranna 1961 til 1990.

Að­eins fjórum sinnum hafa sól­skins­stundirnar verið fleiri í Reykja­vík í júní, mest 338,3 stundir árið 1928, en einnig mældust sól­skins­stundirnar fleiri en nú árin 2012, 1924 og 2008.

Í maí­mánuði mældust sól­skins­stundir í Reykja­vík alls 236,8 sem er 44,8 stundum yfir meðal­lagi áranna 1961 til 1990.

Það eru saman­lagt 575,1 sól­skins­stund í Reykja­vík í maí og júní.

Á Akur­eyri mældust sól­skins­stundirnar í júní 186,3, sem er 9,7 stundum fleiri en að meðal­tali 1961 til 1990. Í maí voru þær 157,4 sem er 16 stundum færri en að meðal­tali 1961 til 1990. Saman­lagt eru það 343,7 stundir í júní og mái.

20 stiga hiti í dag

Í dag er spáð 20 stiga hita í Reykja­vík og allt að 18 stigum nærri Hvann­eyri. Sólin á einnig að skína á Vest­fjörðum, en hiti verður ör­lítið lægri þar. Á Austur- og Norður­landi má búast við ein­hverri rigningu.