Tuttugu metra löng göng fundust grafin undir varð­halds­stöð fyrir flótta­menn í Vestur-Ástralíu á mánu­dag. Göngin liggja á þriggja metra dýpi og voru grafin undir vistar­verum í Yongah Hill varð­halds­stöðinni. The Guar­dian greinir frá.

Göngin höfðu verið grafin undir gólf eins her­bergisins og lágu út undir bert loft í gegnum nokkrar öryggis­girðingar. Ekki er vitað hverjir grófu göngin eða með hverju en talið er að það hafi tekið nokkra mánuði að grafa þau.

Í mynd­bands­upp­töku sem The Guar­dian birtir sést hvar maður krýpur inni í göngunum og virðist grafa þau með höndunum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hælis­leit­endur flýja úr varð­hald­stöð en fyrir tæpum tuttugu árum flúðu 23 hælis­leit­endur úr varð­halds­stöðinni Villawood í S­yd­n­ey í gegnum sam­bæri­leg göng.

„Kerfis­bundið mis­rétti fær að við­gangast bak við girðingar ástralskra varð­halds­stöðva. Hælis­leit­endur njóta ekki sömu réttinda og fangar réttar­kerfisins og eru kerfis­bundið rændir frelsi sínu og and­legri heilsu,“ segir Ian Rin­toul, tals­maður flótta­manna­sam­takanna Refu­gee Action Coalition.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá landa­mæra­eftir­liti Ástralíu eru um 315 manns í haldi í varð­halds­stöðinni Yongah Hill, þar af eru um 175 manns sem hafa fengið neitun um vega­bréfs­á­ritun og 140 hælis­leit­endur. Að­eins karl­menn eru í haldi í varð­halds­stöðinni.

Meðal dvalar­lengd fólks í slíkum varð­halds­stöðum er 627 dagar og í Yongah Hill er fólki oft haldið í langan tíma. 73 manns hefur nú verið haldið í slíkum flótta­manna­búðum í meira en fimm ár og sam­kvæmt upp­lýsingum The Guar­dian er dæmi um fólk sem hefur verið haldið í meira en níu ár.