Héraðsdómur Reykjaness hefur fundið þrítugan karlmann sekann um nauðgun á þjóðhátíð í Eyjum árið 2015. Lögreglurannsókn lauk í nóvember sama ár en ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 22. janúar 2018. 

Honum er gert að sæta fangelsi í 20 mánuði fyrir að hafa haft samræði við konu gegn vilja hennar með því að notfæra sér það að hún gat ekki spornað við verknaði vegna svefndrunga og ölvunar. Ekki þótti tilefni til að að skilorðsbinda dóminn. Einnig var hann dæmdur til að greiða henni eina og hálfa milljón í miskabætur auk þess sem hann greiðir allan sakarkostnað.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa haft samræði við konuna en sagði það hafa verið með hennar vilja og vitundar. Það þótti dómi ólíklegt. 

„Eins og hún hafi rankað við sér úr einhverju blackouti“

Í dómi kemur fram að konan hafi orðið ofurölvi í brekkunni á föstudagskvöldi þjóðhátíðar og muni nánast ekkert eftir því hvað fór þar fram. Hún man heldur ekki eftir því hvernig hún komst í tjald sitt eða að ákærði hafi haft samræði við hana þegar þangað var komið.

Þykir frásögn hennar, sérstaklega þegar litið er til frásagna vitna sem styðja hennar framburð, trúverðug og þykir einkar ólíklegt að hún hafi á einhvern hátt gefið til kynna að hún væri samþykk að ákærði hefði við hana kynmök, og því síður að hún hafi tekið þátt í þeim.

Fyrir dómi lýsti ákærði því að aðstæður hafi verið „ringlaðar“ því „hún var þarna, en samt er eins og hún hafi ekki verið þarna, það er bara eins og hún hafi rankað við sér úr einhverju blackouti eða vaknað upp úr draumi eða einhverju þvílíku“.

Hann hafi þá staðið upp og ætlað úr tjaldinu og þá hafi konan sagt að hún vissi ekki hvað var í gangi og ekki skilið neitt þegar ákærði sagði henni að þau hefðu verið að sofa saman. Það hafi komið honum á óvart og honum þótt það óþægilegt. 

Hann reyndi að ræða við hana á mánudagsmorgni og að biðja hana fyrirgefningar „ef einhvers misskilnings gætti um það sem gerst hefði þeirra í milli.“ Þá hafa hún hins vegar brostið í grát og ekki viljað ræða við hann.

Konan bætti við fyrir dómi að við þetta tækifæri hefði hinn ákærði sagt við hana að honum liði eins og hann hefði nauðgað henni. Hún hafi þá sagt honum að þetta væri nauðgun.

SMS-skilaboð þóttu benda til þess að hann hafi brotið á henni

Í dómi er fjallað um SMS-skilaboð sem ákærði sendi konunni 3. og 5. ágúst. Í fyrri skilaboðum segir hann að honum þyki þetta „virkilega leiðinlegt og sjái svo eftir því að þetta hafi farið svona. Skilji hann fullkomlega að hún sé sár og reið, en voni að fyrir utan þetta hafi hún átt æðislega helgi. Um leið þakkar hann fyrir þá hluta helgarinnar sem þau nutu.“

Í síðari skilaboðunum segir hann að honum þyki þetta enn þá „ótrúlega leiðinlegt hvernig hlutir enduðu á milli þeirra og að þau hafi ekki getað talað saman aftur og útkljáð þetta þegar þau voru orðin edrú. Hafi hann hugsað mikið um þetta síðan og vildi að hlutirnir hefðu farið öðruvísi, sérstaklega þar sem helgin hafi verið búin að vera svo góð. Vonast hann síðan til þess að þau geti rætt þetta og komist að einhvers konar sáttum sem fyrst. Loks kveðst hann vilja að hann gæti bætt fyrir þetta og sér finnist ótrúlega leiðinlegt að þetta hafi endað svona.“

Skilaboðin þóttu benda til þess að hann hafi í raun brotið á henni því í þeim segist hann skilja að hún sé honum sár og reið.

Dóminn er hægt að lesa hér í heild sinni.